*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 27. október 2014 14:25

Stór sakamál gætu tafist lengi

Útlit er fyrir að fresta þurfi málsmeðferð í tveimur málum gegn fyrrverandi stjórnendum Kaupþings vegna anna verjenda.

Ritstjórn
Hreiðar Már er ákærður í báðum málunum.
Haraldur Guðjónsson

Útlit er fyrir að fresta þurfi málsmeðferð í tveimur sakamálum á hendur fyrrverandi stjórnendum Kaupþings vegna anna verjenda. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Þar kemur fram að annað málið sem útlit er fyrir að tefjist snúi að ákæru um milljarða króna fjárdrátt úr sjóðum Kaupþings. Ákæra var gefin út í júní en virðist nú sem aðalmeðferð málsins geti ekki farið fram fyrr en á síðari hluta næsta árs.

Verjandi Skúla Þorvaldssonar, sem ákærður er í málinu, mótmælti töfunum harðlega í dómssal í morgun og sagði að Skúli hefði þurft að sæta þvingunaraðgerðum með frystingu fjármuna í þrjú ár og því þyrfti að flýta málinu. Dómari málsins tók undir og sagði að töfin væri mjög slæm og bagaleg.

Hitt málið snýr að risalánum Kaupþings til aflandsfélaga síðustu mánuðina fyrir hrun. Því hefur verið frestað fram í október á næsta ári og útlit er fyrir að aðalmeðferð málsins fari ekki fram fyrr en í lok næsta árs.