Fyrir skemmstu vísaði héraðsdómur Reykjavíkur frá dómi kröfu Wow air um að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála um úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli yrði felldur úr gildi. Var það gert á þeim grundvelli að fyrirtækið hefði ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr kröfu sinni í málinu. Samkeppniseftirlitið hafði áður gefið út úrskurð þess efnis að Wow air ætti rétt á tveimur af afgreiðslutímum Icelandair á flugvellinum til þess að geta hafið flug til Bandaríkjanna.

Það er danska fyrirtækið Airport Coordination sem sér um uppröðun á afgreiðslutímum á íslenskum flugvöllum. Frank Holton, framkvæmdastjóri fyrirtæksins, segir í samtali við Túrista að niðurstaða héraðsdóms staðfesti að rétt hafi verið staðið að úthlutuninni.

„Þetta er að mínu mati stór sigur fyrir neytendur sem og flugrekstraraðila og tryggir öryggi í kringum flugþjónustuna. Ef fjárfesta á í dýrum flugvélum verða fyrirtækin að búa við skilyrði sem gilda til lengri tíma og það gagnast á endanum neytendum líka,“ segir Holton.

Hann segir jafnframt að hafa verði í huga að hefðarrétturinn sé ekki bara réttur því hann leggi einnig skyldur á herðar flugrekenda. „Þeir verða nefnilega að nýta a.m.k. áttatíu prósent flugtímanna ef þeir ætla að halda þeim.“ Holton telur að ef niðurstaða héraðsdóms hefði verið á hinn veginn hefðu afleiðingarnar getað orðið óyfirstíganlegar.

Wow air hefur gefið út að niðurstöðunni verði áfrýjað til Hæstaréttar.