Jeroen Dijsselbloem, fjármálaráðherra Hollands og formaður Evruhóps fjármálaráðherra evruríkjanna, sagði eftir fund fjármálaráðherranna með grískum stjórnmála- og embættismönnum að áður en hægt væri að ganga frá samningi við Grikkland og afhenda lánafyrirgreiðslu þyrfti að liggja fyrir ítarlegur listi yfir umbætur í gríska hag- og stjórnkerfinu. Hann sagði að „stór, stór vandamál“ þyrfti að leysa áður en hægt væri að samþykkja slíkan samning, að því er segir í frétt BBC.

Fundurinn var haldinn í Riga, höfuðborg Lettlands, og er enn verið að reyna að hamra saman samkomulag sem mun gera Grikklandi kleyft að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Í maí þarf gríska ríkið að greiða um einn milljarð evra til alþjóðlegra kröfuhafa, auk þess sem það þarf að fjármagna almennan rekstur ríkisins. Það hefur reynst ríkissjóði Grikklands æ erfiðara að afla nægilegs fjármagns. Í vikunni var öllum héraðs- og borgarstjórnum skipað að skila innstæðum sínum inn í gríska seðlabankann.

Dijsselbloem sagði eftir fundinn að allir viðstaddir væru meðvitaðir um að tíminn væri að renna út. Valdis Dombrovskis, sem fer með málefni evrunnar í framkvæmdastjórn ESB, sagði að ekki hefði nægilegur árangur orðið af viðræðunum í Riga til að ná niðurstöðu í málið.

Ráðherrar evruríkjanna eru enn að bíða eftir því að grísk stjórnvöld kynni aðgerðapakka um umbætur í gríska hagkerfinu sem þeim er þóknanlegur, en slíkar umbætur eru skilyrði fyrir frekari fjárhagslegri aðstoð við Grikki.