Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson, rekstrarstjóri Plain Vanilla, hætti í skóla árið 2008 til þess að gerast annar af tveimur stofnendum markaðsrannsóknafyrirtækisins CLARA. Fyrirtækið var selt til bandaríska fyrirtækisins Jive árið 2013 fyrir meira en milljarð króna. Gunnar vann hjá Jive í San Francisco um tíma, en sneri aftur til Íslands á síðasta ári og hóf störf hjá Plain Vanilla.

Hann segir starf sitt að miklu leyti snúast um skipulagningu og uppbyggingu félagsins, en starfsmannafjöldi þess hefur vaxið úr 15 manns í 90 frá því að QuizUp-leikurinn var gefinn út. „Ég hef reynt að taka þann lærdóm sem ég hafði af því að vera með 10 manna teymi og búa bara til fullt af 10 manna teymum, þannig að það skalist betur hvernig við vinnum, ferlarnir, vöruþróunarferlar og þannig,“ segir Gunnar.

Vill stofna nýtt fyrirtæki

Aðspurður segist Gunnar pottþétt geta hugsað sér að stofna nýtt sprotafyrirtæki og halda aftur út í óvissuna. Og hann svarar því játandi þegar hann er spurður hvort hann hafi viðskiptahugmyndir í kollinum. „En ekkert sem er orðið meira spennandi en það sem við erum að gera hérna hjá QuizUp. Það eru ennþá mjög stór tækifæri eftir fyrir okkur hérna hjá QuizUp. Tækifæri sem tengjast því sem við erum að gera núna og opna QuizUp og gera menntun skemmtilega og svona. Þannig að það er nóg eftir hérna.“

En geturðu hugsað þér að hætta hérna og stofna annað fyrirtæki í kringum nýja hugmynd?

„Ekki strax. Mér finnst eins og við séum rétt að byrja hérna hjá QuizUp. Þannig að það er hundrað prósent að fara að gerast einhvern tímann en ekki alveg til skamms tíma.“

Hvað myndirðu gera öðruvísi ef þú værir að stofna sprotafyrirtæki í dag og ganga aftur í gegnum þetta ferli?

„Fara fyrr út. Ég held að það væri það fyrsta sem ég myndi gera öðruvísi. Við náðum í pening á Íslandi og fórum svo út. Ég hefði farið fyrst út og náð í pening þar ef ég væri að gera þetta, eða þegar ég geri þetta næst.“

Nánar er fjallað um málið í Frumkvöðlum tímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .