Um þessar mundir stendur yfir hlutafjárútboð hjá Finnair þar sem stefnt er að því að auka hlutafé félagsins um 44%. Í Hálffimm fréttum Kaupþings segir að heildarverðmæti útboðsins, sem lýkur þann 17. desember, sé um 22,4 milljarðar króna að því gefnu að núverandi hluthafar kaupi allt það hlutafé sem í boði er. Finnair ætlar að nota andvirðið til þess að endurnýja flugflotann sem styður svo við stefnu þess um ytri vöxt.

Bæði finnska ríkið, sem er stærsti hluthafinn með 55,7% hlutafjár í Finnair, og FL Group sem heldur utan um 24%, ætla að nýta sér forgangsrétt sinn.

Mikið gengistap hjá FL Group

Athygli vekur að útboðsgengið er 6,3 evrur á hlut sem er langt undir markaðsgengi félagsins, sem var um 8,1 evra á hlut um hádegisbil í gær, og nærri fjörutíu prósentum lægra en gengi félagsins fyrir mánuði síðan. Lýsir það berlega þeim markaðsaðstæðum sem menn búa við á þessum tímum að stjórn félagsins kjósi að veita svo ríflegan afslátt. Nú er svo komið að áætlað gengistap FL Group af hlut sínum í Finnair er orðið um 5,8 milljarður króna á fjórða ársfjórðungi sem er meira tap en af eignarhlut félagsins í Commerzbank á sama tíma, sagði í Hálffimm fréttum Kaupþings.