Þrír lykilstarfsmenn Glitnis, sem fengu í gegnum eignarhaldsfélög lánaðar samtals 1.770 milljónir króna til hlutabréfakaupa í bankanum um miðjan maí 2008, voru fruminnherjar í bankanum þegar viðskiptin áttu sér stað.

Glitnir tilkynnti um viðskiptin til FME og Kauphallar en þau voru ekki birt opinberlega.

Að sögn Kristins Arnar Stefánssonar, þáverandi regluvarðar bankans, hafði stjórn bankans sett sér þau viðmið að birta opinberlega viðskipti í Kauphöll aðeins þegar stjórnarmenn, forstjóri og framkvæmdarstjórar í framkvæmdarstjórn áttu hlut að máli.

Umræddir starfsmenn, sem komu við sögu í þessum viðskiptum, voru Magnús A. Arngrímsson, Stefán Sigurðsson og Vilhelm Már Þorsteinsson. Bæði Magnús og Vilhelm tóku sæti í framkvæmdarstjórn bankans degi eftir viðskiptin.