Stefán B. Gunnlaugsson, lektor við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri, hefur að beiðni efnahags- og viðskiptaráðherra gert samanburð á áhrifum frumvarps samkvæmt þingskjali nr. 1475 (sem oftast er kallað „stóra frumvarpið) og áhrifum fjórföldunar á veiðigjaldi á rekstur og efnahags íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja.

Samkvæmt rannsókn Stefáns hefur „stóra frumvarpið“ margvísleg og mjög neikvæð áhrif á rekstur og efnahag íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Hækkun veiðigjalds, flutningur kvóta í potta, algjört bann við veðsetningu og fleiri atriði frumvarpsins draga mjög úr hagkvæmni sjávarútvegsfyrirtækja.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Greinagerð Stefáns er að sögn ráðuneytisins framhald af þeirri vinnu og snýr að samanburði við mjög mikla hækkun veiðigjalds, þ.e. úr 9,5% af reiknuðu EBITDA útgerðar í 38%.

Í tilkynningunni kemur fram að fyrirtækin séu mörg skuldug og megi mörg ekki við verulega verra rekstrarumhverfi. Þetta á sérstaklega við um fyrirtæki í krókaaflamarkskerfinu.

„Efnahagsleg áhrif frumvarpsins eru mun meiri en áhrif fjórföldunar veiðigjalds. Áætla má að frumvarpið lækki virði aflaheimilda um rúmlega 50%. Fjórföldun veiðigjalds gæti hins vegar lækkað virði þeirra um rúmlega 30%,“ segir í tilkynningunni.

Sjá greinargerð Stefáns í heild sinni.