Simens-mútumálið á að senda þau skilaboð til fyrirtækja heimsins að spilling og mútur verða ekki umbornar, hefur fréttastofa Reuters eftir Anton Winkler, yfirsaksóknara í máli þýska ríkisins gegn forsvarsmönnum Siemens, en málflutningur í því hófst á mánudag í München.

Mútur upp á 113 milljarða króna?

Nú þegar hefur verið upplýst að málið lúti einkum að stórfelldum mútum á vegum fyrirtækisins, sem numið hafi samtals allt að 1 milljarði evra, eða sem nemur 113 milljörðum íslenskra króna.

Fyrstu rannsóknir bentu til að upphæðin væri „aðeins” um 20 milljónir evra, en stöðugt hærri fjárhæðir hafa komið í ljós.

Siemens er stærsta tækni- og verkfræðifyrirtækitæki Evrópu og hefur mútumálið m.a. haft þau áhrif að framkvæmdastjóri þess, Klaus Kleinfeld, sagði af sér og sömuleiðis stjórnarformaður, Heinrich von Pierer. Þeir eru báðir kallaðir til vitnis í réttarhöldunum.

„Við vonum að málið vekji menn innan stórfyrirtækja til nýrrar meðvitundar um að mútur verða ekki þolaðar, hvorki í Þýskalandi né annars staðar,” sagði Winkler.

5 terabæt af málsgögnum

Einn forkólfa málsins er talinn vera Reinhard Siekaczek, fyrrum framkvæmdastjóri fjarskiptabúnaðardeildar fyrirtækisins.

Siekaczek er ákærður fyrir að hafa byggt upp flókið kerfi mútusjóða og gervifyrirtækja til að fela ólögmætar peningagreiðslur.

Auk vandræða Siemens heima fyrir er margar stofnanir víðs vegar um heim, þar á meðal bandaríska dómsmálaráðuneytið, að rannsaka framferði Siemens og ef rannsóknin reynist fyrirtækinu óvilhöll gæti það leitt til að því yrði meinað að bjóða í ákveðin verk í Bandaríkjunum.

Þýsku saksóknarar hafa tekið tæplega 300 einstaklinga til rannsóknar vegna málsins og málsgögnin nema nú þegar 5 milljónum skjala í A4 stærð, eða sem svarar um 5 terabætum af gögnum.