Á morgun verður stærsti angi stóra olíusamráðsmálsins til umfjöllunar í Hæstarétti þegar málflutningur fer fram í máli Samkeppniseftirlitsins og íslenska ríkisins gegn olíufélögunum þremur.

Málið fjallar um sektargreiðslur sem Samkeppniseftirlitið gerði olíufélögunum að greiða árið 2005 eftir að upp komst um samráð félaganna á árunum 1993 til 2001. Olíufélögin töldu annmarka hafa verið á málsmeðferðinni á stjórnsýslustigi og höfðuðu því mál gegn hinu opinbera.

Héraðsdómur dæmdi þeim í hag í mars á síðasta ári og felldi úr gildi ákvörðun áfrýjunarnefndar samkeppnismála um umræddar sektargreiðslur. Var ríkinu gert að endurgreiða olíufélögunum þremur samtals um einn og hálfan milljarð króna. Yfirvöld áfrýjuðu sem fyrr segir þeim dómi og fjallar Hæstiréttur um málið á mánudag.