Erlend viðskiptablöð hafa undanfarna daga fjallað um hversu rólegur ágúst var í Evrópu, í efnahagslegu tilliti.

Álag á löng ríkisskuldabréf Spánar og Ítalíu hafa lítið hreyfst en álagið á styttri skuldabréf hafa lækkað umtalsvert. Sveiflur á hlutabréfamörkuðum vegna krísunnar í Evrópu hafa einnig verið minni en í byrjun sumars.

Wall Street Journal sagði á vef sínum í gær að eftirspurn eftir spænskum ríkisskuldabréfum til langs tíma (10 ára) hefði hrunið allt þetta ár. Í janúar voru gefin út löng skuldabréf fyrir um 17 milljarða evra, um 14 milljarða í febrúar og um 7,5 milljarða í mars. Frá apríl til júní var útgáfan í kringum 5 milljarða á mánuði en fór í um 6 milljarða í júlí. Í ágúst hafa hins vegar aðeins verið gefin út löng skuldabréf fyrir 3,3 milljarða evra.

Til skemmri tíma er mun hagstæðara fyrir Spán að gefa út skammtímaskuldabréf. Hins vegar getur það valdið alltof þungri endurgreiðslubyrði á næstu árum.

Þegar finna Spánverjar fyrir þungum skuldabagganum, því ríkissjóðurinn þarf að endurgreiða yfir 20 milljarða evra í október. Sérfræðingar telja að það sé hið stóra álagspróf á spænskan efnahag og getu Evrópusambandsins og Evrópska seðlabankans við að bregðast við fjármálakrísunni í álfunni.