„Okkar stóra verkefni er að halda rekstrinum í eins góðu horfi og mögulegt er," segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, en í morgun var tilkynnt að Íslandsbanki hefði leyst til sín 42% hlutafjár í félaginu.

Hann segir aðspurður að það hafi væntanlega legið lengi fyrir að ákveðnir aðilar ættu í vandræðum með að halda sínum hlut. Hann kveðst ekki geta sagt til um fjárhagsstöðu annarra hluthafa.

Björgólfur segir, spurður út í stöðu félagsins, að skuldastaðan sé há og að verið sé að vinna að endurskipulagningu á efnahagi félagsins og „aðlaga greiðsluferli lána að getu rekstrarins til að greiða til baka."

Tekið var fram í tilkynningu í morgun að rekstur félagsins hefði gengið betur á fyrsta ársfjórðungi 2009 en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þá kom þar fram að stefnt væri að því að hlutirnir yrðu seldir aftur í opnu og gegnsæju söluferli.

Eins og fram kom í frétt vb.is í morgun eru það  hlutir Fjárfestingafélagsins Máttar, sem átti 23,1% í Icelandair Group, og Nausts, sem átti 14,8%, sem eru lunginn úr því sem Íslandsbanki hefur leyst til sín í félaginu.