Fjárfestirinn Eggert Dagbjartsson fæddist á Íslandi og ólst upp í Stykkishólmi. Árið 1976, þegar Eggert var þrettán ára gamall, fór hann sem skiptinemi til Bandaríkjanna. Upphaflega stóð til að hann yrði í Bandaríkjunum í eitt ár en vera hans þar í landi varð lengri en áætlað var og hefur hann búið í Bandaríkjunum allar götur síðan. Eftir að hafa útskrifast úr bandarískum menntaskóla (e. High School) með ágætiseinkunn í sínum árgangi hóf Eggert nám við hinn virta Harvard háskóla árið 1982.

„Eftir útskrift úr menntaskóla átti ég að snúa aftur heim til Íslands. Allir vinir mínir úti í Bandaríkjunum voru að sækja um háskólavist og ég hafði mikinn áhuga á að fara í háskóla úti í Bandaríkjunum. Það fór því svo að ég sótti um skólavist í Harvard og komst þar inn." Í Harvard nam Eggert Austur-Asíufræði og sögu.

Eftir að hafa lokið tveimur og hálfu ári í Harvard fékk Eggert heimild til að taka sér leyfi frá námi, til þess að öðlast atvinnureynslu, og hóf hann þá störf hjá Equity Resource Investments (ERI), fjárfestingafélagi sem sérhæfir sig í fasteignaviðskiptum á bandarískum markaði. Hann starfar enn í dag þar, 33 árum síðar, og á hann því enn eftir að ljúka háskólagráðunni frá Harvard. Leyfið frá náminu er þó ótakmarkað og segir Eggert ekki útilokað að hann snúi aftur á skólabekk til að ljúka náminu.

Frá árinu 1990 hefur Eggert haft yfirumsjón með öllum fjárfestingaverkefnum ERI. Á þessum árum hefur hann stýrt 40 mismunandi fasteignafjárfestingarsjóðum og staðið fyrir fjölda fjárfestinga - rúmlega 1.000 talsins - sem spanna nær öll svið fasteigna. Áherslan hefur þó að sögn Eggerts verið hvað mest á fjárfestingar í íbúðarhúsnæði. „Árið 1991 var ég tekinn inn í eigendahóp ERI og um áratug síðar var ég svo orðinn meirihlutaeigandi. Í dag stýrum við eignum að virði yfir milljarðs bandaríkjadala og fjárfestum beint í yfir 500 fasteignafélögum."

Eggert hefur í mörg horn að líta og er með mörg verkefni á sinni könnu. Þar á meðal er stórt verkefni í Dallas. „Í þessu verkefni erum við með 400 ekra iðnaðargarð í Dallas, þar sem við erum að leggja lokahönd á 223 þúsund fermetra vöruhús sem verður leigt til Home Depot. Þá höfum við einnig áform um að byggja annað 185 þúsund fermetra vöruhús á svæðinu, fyrir aðra notendur."

Flókið fyrir erlenda aðila fjárfestingaverkefnum

Eins og áður segir vinnur Eggert aðallega í fasteignafjárfestingaverkefnum í Bandaríkjunum. Hann hefur þó einnig fjárfest í verkefnum hér á landi.

„Ég kynntist íslenskri konu árið 1994 og hóf í kjölfarið að koma mun oftar til Íslands en ég hafði gert áður. Við höfum keypt okkur nokkrar íbúðir á Íslandi, sem við höfum gert upp og selt svo aftur. Við keyptum okkur svo fyrir nokkrum árum íbúð í Reykjavík og búum í henni þegar við erum á Íslandi. Ég fjárfesti einnig í matvælafyrirtækinu Fisherman á Vestfjörðum og er mjög spenntur fyrir því. Svo er ég ásamt Íslenskum fasteignum búinn að gera kaupsamning á mjög stóru landi í útjaðri Reykjavíkur þar sem hugmyndin er að koma upp margs konar afþreyingu sem höfðar til ferðamanna. Þetta verkefni er þó á algjöru byrjunarstigi og því er ekki tímabært að segja nánar frá því."

Ofangreind verkefni eru þó ekki þau einu sem Eggert hefur fjárfest í hér á landi. Hann fjárfestir í tveimur stórum fasteignaverkefnum sem nú eru í fullum gangi við við hafnarsvæðið í miðbæ Reykjavíkur, við hliðina á Hörpunni. Annars vegar er um að ræða byggingu fimm stjörnu hótels sem hótelkeðjan Marriott mun koma til með að reka undir EDITION vörumerkinu. Hins vegar er um að ræða einkar metnaðarfullt byggingarverkefni á 71 íbúð í Austurhöfn. Eggert fjárfesti í hótelverkefninu ásamt bandaríska fasteignaþróunarfélaginu Carpenter & Company. Hann og bandaríska félagið eiga samtals 30% hlut í verkefninu en restin er í eigu íslenskra einkafjárfesta,  lífeyrissjóða  og tryggingafélaga. Að Austurhafnarverkefninu standa svo innlendir fjárfestar. Eggert segir flókið fyrir erlenda aðila að koma að fjárfestingaverkefnum hér á landi.

„Það er stór hópur af erlendum aðilum sem tekur þátt í hótelverkefninu og verkefnið hefur verið ótrúlega flókið og tímafrekt. Austurhafnarverkefnið, sem ég kom inn í síðar, hefur verið mjög auðvelt í samanburði við hótelið. Það flækir hlutina þegar erlendir aðilar koma að borðinu. Það þarf meðal annars að fá leyfi frá Utanríkisráðuneytinu fyrir því að erlendir aðilar komi að slíkum verkefnum hér á Íslandi."

Eggert bendir á það að kvöð hafi hvílt á landinu þar sem Reykjavík EDITION hótelið rís, en hún væri að á reitnum mætti eingöngu byggja fimm stjörnu hótel sem yrði rekið af alþjóðlegri hótelkeðju.

„Ástæðan fyrir því er sú að það er mjög mikilvægt fyrir Hörpuna að hótelið sem myndi rísa á reitnum laði að viðskiptatengda viðburði, til dæmis stórar ráðstefnur. Það er mikill fengur að Marriott skuli sjá um rekstur hótelsins, enda er viðskiptavinahópur Marriott mjög stór og til marks um það eru um 100 milljónir manna skráðir í meðlimaklúbbinn þeirra. Það hefur verið vöntun á háklassa fimm stjörnu hóteli hér á Íslandi og margt fólk sem vill einungis gista á fimm stjörnu hóteli hefur því látið það vera að heimsækja Ísland. Hótelið er því líklegt til að laða þessa ferðamenn til Íslands," segir hann.

Nánar er rætt við Eggert í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .