Fyrir sléttri viku síðan opnaði Apple greiðsluþjónustu fyrir eigendur iPhone 6, iPhone 6 Plus og Apple úrsins í Bandaríkjunum. Geta notendur þessara tækja þannig notað þau til þess að greiða fyrir vörur og þjónustu í völdum verslunum.

Greiðsluþjónustan virkar þannig að eigandi símans heldur honum upp að sérstökum nema á meðan hann styður fingri við fingrafaraskanna á símanum til þess að kaupa vörur.

Nú er hins vegar komið babb í bátinn hjá Apple því verslunarrisarnir CVS og Rite Aid í Bandaríkjunum hafa hafnað því að taka greiðslukerfið í notkun. Er þar um nokkra hagsmuni að ræða fyrir Apple, enda eru verslanir CVS um 7.700 talsins víðs vegar um Bandaríkin.

Hins vegar þarf tæknirisinn ekki að örvænta ennþá því fjöldi annarra stórverslana hefur tekið kerfið í notkun. Má þar nefna McDonalds, Nike, Toys'R'Us, Urban Outfitters og margar fleiri.