Þegar Elín Jónsdóttir tók við sem framkvæmdastjóri VÍB, eignastýringa­ þjónustu Íslandsbanka, hafði hún gegnt stöðu stjórnarformanns hjá Regin og VÍS, forstjóra Bankasýslu ríkisins og framkvæmdastjóra Arev verðbréfa. Þegar hún tók við framkvæmdastjórastöðunni hjá VÍB vildi hún framar öllu efla fræðslustarf fyrirtækisins sem hún segir hafa styrkt vörumerkið verulega.

Fræðslustarf VÍB hefur vaxið töluvert í umfangi á síðustu árum. Árið 2014 mættu 3.553 manns á opna fræðslufundi eignastýringarþjónustunnar og um 21.420 manns horfðu á fundina á netinu, ýmist í beinni eða á upptöku. Það sem af er ári hafa 4.930 manns mætt á fræðslufundi VÍB og 49.077 hafa horft á upptöku af fundunum á netinu.

Fólk horfir ekki lengur á auglýsingar

„Þetta á sér skemmtilega sögu sem mörgum innan bankans sem hafa starfað á eignastýringarsviði er mjög hlýtt til,“ segir Elín þegar hún er beðin um að rekja sögu fræðslustarfsins. „Þetta minnir á tímana þegar gamla VÍB var með heilmikla fræðslu og bókaútgáfu. Þetta hafði þessa táknrænu þýðingu fagmennsku, fræðslu og sjálfstæð­is, vegna þess að VÍB var sjálfstætt dótturfélag Íslandsbanka og staðsett í Ármúla. Þetta skiptir líka máli fyrir starfsfólkið. Það skiptir máli hvernig við birtumst viðskiptavinunum en þetta gerir líka starfsfólkinu kleift að vera stolt af vinnunni sinni. Þetta er dæmi um svokallaða efnismarkaðssetningu (e. content marketing) sem við höfum verið að einblína á í stað hefðbundinna auglýsinga. Með breyttri fjölmiðlun þá er fólk ekki lengur að horfa á auglýsingar. Það getur farið fram hjá auglýsingum og þú nærð því ekki sambandi við viðskiptavininn í gegnum þennan miðil eins og áður fyrr. Ef maður vill vekja athygli á vörumerki sínu eða vörunum sem maður er að selja þá er þetta ný leið til þess sem slær margar flugur í einu höggi. Við sjáum það á könnunum að ef fólk er spurt hvert það myndi fara ef það ætlar að fjárfesta þá er VÍB í fyrsta sæti. Það erum við auðvitað mjög ánægð með.“

Nánar er rætt við Elínu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .