Á fyrstu sjö mánuðum ársins, á tímabilinu janúar til júlí, hafa Íslendingar flutt út vörur fyrir 280 milljarða króna en hins vegar hefur verið flutt inn vörur fyrir tæplega 389 milljarða króna. Því er halli á vöruviðskiptum við útlönd sem nemur tæpum 109 milljörðum króna. Á sama tíma árið áður voru vöruviðskiptin óhagstæð um 73,9  milljarða á gengi hvors árs.

Vöruviðskiptahallinn það sem af er þessu ári er því 34,9 milljörðum króna hærri en á sama tíma í fyrra. Einnig er hann hærri en halli ársins 2016, sem nam 108,2 milljarði króna að því er kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofu Íslands . Í júlí voru fluttar út vörur fyrir 35,7 milljarða og inn fyrir 58,6 milljarða. Vöruviðskiptin í júlí voru því óhagstæð um 22,8 milljarða - samanborið við óhagstæð vöruviðskipti um 9,8 milljarða á sama tíma í fyrra.

Mestur samdráttur í útflutningi á fiski

Það sem af er ári er verðmæti vöruútflutnings 38,9 milljörðum krónum lægra, eða 12,2% á gengi hvors árs, en sama tíma árið áður. Iðnaðarvörur voru 55,7% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 3,3% lægra en á sama tíma árið áður. Útflutningur á lyfjum og lækningatækjum dróst saman en útflutningur á áli jókst. Sjávarafurðir voru 37,7% alls vöruútflutnings og var verðmæti þeirra 23,9% lægra en á sama tíma árið áður. Mestur samdráttur var í útflutningi á ferskum fiski og frystum flökum.

Á tímabilinu frá janúar til júlí 2017 var verðmæti vöruinnflutnings 49,8 milljörðum krónum hærra, eða 14,7%, á gengi hvors árs en sama tímabil áður árið. Innflutningur á hrá- og rekstrarvörum, skipum, eldsneyti, fjárfestingavöru og fólksbílum jókst en á móti dróst innflutningur á flugvélum saman.

Mesti vöruviðskiptahalli í rúman áratug

Nýverið gerði Viðskiptablaðið vöruviðskiptahallann að umfjöllunarefni sínu, en þá kom fram að vöruviðskiptahalli á fyrri helmingi þessa árs hafi mælst 81,1 milljarði króna, og síðan þá hefur hann aukist enn meira eins og tölurnar gefa til kynna. Hallinn hafði ekki mælst meiri á einum árshelmgi síðan 2006. Að mati greiningaraðila endurspeglar hallinn sterka krónu og trausta fjárhagsstöðu heimilanna.

Í greininni var haft eftir Ernu Björgu Sverrisdóttur, hagfræðingi hjá greiningardeild Arion banka, að vaxandi vöruviðskiptahalli væri ekki vandamál í sjálfu sér, enda endurspegli hallinn trausta fjárhagsstöðu heimilanna: „„Vaxandi vöruskiptahalli er í sjálfu sér ekki vandamál, enda er það ekki endilega markmið ríkis að hafa afgang á vöruskiptum. Hallinn endurspeglar sterka krónu og sterka fjárhagsstöðu heimilanna. Þá verður að hafa í huga að vöruskiptin eru aðeins hluti af okkar útflutningsverslun. Afgangur á þjónustuviðskiptum vegur ríflega á móti vöruskiptahallanum. Miðað við þann fjölda ferðamanna sem hefur sótt landið heim að undanförnu er ekkert sem bendir til annars en að enn um sinn verði talsverður við- skiptaafgangur,“ útskýrði greiningaraðilinn í samtali við Viðskiptablaðið fyrir stuttu.

Vöruviðskiptajöfnuður 2017
Vöruviðskiptajöfnuður 2017

Heimild: Hagstofa Íslands.

Vöruviðskiptahalli 2
Vöruviðskiptahalli 2