Vaxandi óvissa virðist vera um virði útlánasafns Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Greiðslufyrirkomulag námslána veldur því að afkoma sjóðsins er næm fyrir breytingum á launastigi lántaka. Stórir hópar námsmanna, sem hófu nám sitt í efnahagskreppunni, eru nú að koma út á vinnumarkaðinn og ríkið á mikið undir því að þessir námsmenn geti greitt lán sín til baka.

En hægari vöxtur launa, hækkandi lánveitingar og hærri aldur námsmanna við útskrift valda því að ríkisframlag til LÍN mun að öðru óbreyttu þurfa að aukast á næstu árum eigi eiginfjárhlutfall sjóðsins ekki að minnka. Meðal annars vegna þessa eru áformaðar breytingar á lögum um LÍN þar sem búast má við breytingum á fyrirkomulagi lánveitinga.

Verri horfur

Í efnahagskreppunni hóf fjöldi fólks háskólanám. Ný útlán LÍN voru þriðjungi meiri að raunvirði árið 2010 en árið 2007. Ljóst er að íslenska ríkið hefur tekið stóra fjárhagslega stöðu í tekjum háskólamenntaðra Íslendinga, ekki síst þeirra sem hafa útskrifast á undanförnum árum.

En þar eru miklir og vaxandi áhættuþættir. Þar sem afborganir námslána LÍN eru tekjutengdar, og ekki hefur verið krafist ábyrgða vegna námslána síðan 2009, á sjóðurinn mikið undir því að tekjur lántaka séu sem hæstar að námi loknu. Væntar ævitekjur fólks, einkum háskólamenntaðra, virðast hins vegar hafa minnkað á undanförnum árum.

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .