Heildarvelta tíu stærstu útgerða landsins nam rúmlega 232 milljörðum króna á síðasta ári og jókst um nærri 44 milljarða frá fyrra ári, eða um 23%.

Samanlagður hagnaður félaganna nam tæplega 58 milljörðum króna og jókst um 35 milljarða milli ára. Öll félögin skiluðu hagnaði og juku afkomu sína verulega milli ára. Eitt þeirra, Skinney-Þinganes, sneri neikvæðri afkomu í jákvæða. Átta af félögunum tíu gera upp í erlendum gjaldmiðlum en Skinney-Þinganes og FISK-Seafood gera upp í íslenskum krónum. Árið 2019 tapaði Skinney-Þinganes 833 milljónum króna , þrátt fyrir tæplega 1,9 milljarða króna rekstrarhagnað. Neikvæður gengismunur upp á ríflega 2,3 milljarða gerði það aftur á móti að verkum að fyrrnefnt tap varð af rekstri félagsins. Síldarvinnslan gerir upp í Bandaríkjadölum en hin sjö félögin gera upp í evrum.

Í samantektinni er litið er til þeirra tíu útgerða sem fengu úthlutað flestum þorskígildistonnum fyrir veiðiárið 2021-2022. Sérstakar úthlutanir, líkt og skel- og rækjubætur, eru ekki innifaldar í tölunum.

Samanlögð arðgreiðsla útgerðanna nam hátt í 5,1 milljarði króna árið 2021, samanborið við tæplega 6 milljarða árið 2020. Öll félögin greiddu út arð á tímabilinu, fyrir utan Samherja. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sagði á aðalfundi félagsins sem haldinn var í síðasta mánuði að félagið hyggist ekki heldur greiða út arð á þessu ári. Fjárstyrk félagsins verði beint inn í ný verkefni á sviði sjávarútvegs. Hann boðaði að félagið hygðist fjárfesta fyrir allt að 60 milljarða króna í fiskeldi á komandi árum.

Brim og Samherji langt stærst

Brim og Samherji eru lang stærst félaganna tíu. Brim velti rúmlega 58 milljörðum króna í fyrra og Samherji fylgdi fast á hæla Brims með tæplega 57 milljarða króna veltu. Árið áður velti Samherji tæplega 47 milljörðum króna og Brim rétt rúmlega 45 milljörðum króna. Samanlögð velta útgerðanna tveggja stóð því undir nærri helmingi veltu félaganna tíu í fyrra og hið sama var upp á teningnum árið áður. Heildarhagnaður félaganna tveggja nam alls rúmlega 29 milljörðum króna í fyrra og nam rúmlega helmingi af heildarhagnaði útgerðarfélaganna tíu. Árið áður stóðu félögin jafnframt undir rúmlega helmingi af heildarhagnaði félaganna.

Hafa ber þó í huga að bæði félög skiluðu töluverðum söluhagnaði í fyrra. Samherji seldi hluta af bréfum sínum í Síldavinnslunni er félagið var skráð á Aðalmarkað kauphallar Nasdaq á Íslandi i maí í fyrra. Söluhagnaður Samherja vegna sölunnar, auk hlutdeildar í afkomu Síldarvinnslunnar á síðasta ári, nam samtals 9,7 milljörðum króna. Þá tekjufærði Brim nærri 2,7 milljarða króna á síðasta ársfjórðungi síðasta árs vegna söluhagnaðar aflaheimilda. Brim seldi 5,84% aflahlutdeild í loðnu vegna þess að félagið fór yfir heildarverðmæti aflahlutdeildar allra tegunda sem sæta ákvörðun um leyfðan heildarafla  af reiknuðum heildarþorskígildistonnum.

10 stærstu útgerðir landsins - lykiltölur 2021 og 2020

Velta Hagnaður Arðsemi Arður
2021 2020 2021 2020 2021 2020 2021 2020
Brim (€) 58,263 45,188 11,295 4,537 18.9% 8.7% 2,333 1,842
Samherji (€) 56,700 46,676 17,800 7,835 18.9% 10.1% 0 0
FISK-Seafood 10,370 10,692 3,634 1,718 10.9% 5.9% 450 450
Þorbjörn (€) 11,044 10,794 2,166 348 21.7% 4.3% 100 99
Skinney-Þinganes 13,408 11,318 2,735 -833 18.7% -6.7% 500 350
Rammi (€) 10,048 8,859 1,977 1,353 12.7% 9.7% 143 147
Vinnslustöðin (€) 20,232 11,699 2,273 827 19.1% 8.0% 826 773
Vísir (€) 10,326 10,411 805 408 11.2% 6.1% 153 93
ÚR (€) 11,564 8,524 3,951 1,226 10.6% 3.2% 481 335
Síldarvinnslan ($) 30,102 24,262 11,100 5,311 20.7% 10.2% 76 1,879

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.