Stórbreytt erlend eigna- og skuldastaða hins íslenska hagkerfis er til merkis um þá stórtæku breytingar í átt til alþjóðavæðingar sem átt hafa sér stað hér á landi á undanförnum árum, segir greiningardeild Glitnis.

?Erlendar eignir Íslendinga stóðu í 3.446 milljörðum króna í lok annars ársfjórðungs þessa árs og höfðu aukist um 937 milljarða króna frá áramótum. Skuldirnar námu hins vegar 4.744 milljörðum króna og höfðu frá áramótum aukist um 1.415 milljarða króna. Hrein erlend skuldastaða þjóðarbúsins versnaði því á tímabilinu og nam 1.297 milljörðum króna í lok annars ársfjórðungs í samanburði við 820 milljarða króna í upphafi árs," segir greiningardeildin.

?Það kemur ekki á óvart að sá hluti viðskiptajafnaðarins sem tekið hefur hvað stórstígustu breytingunum á undanförnum misserum tengist þessari erlendu eigna- og skuldastöðu. Þetta er sá hluti sem mælir muninn á fjármagnstekjum og gjöldum íslenskra aðila erlendis og erlendra aðila hér á landi. Þessi hluti nam um fimmtungi viðskiptahallans á fyrri hluta þessa árs eða ríflega 25 milljörðum króna. Þessi hluti hallans verður meiri í ár en hann hefur áður verið. Kemur það til af ofangreindum breytingum í eigna og skuldastöðu hagkerfisins og þeirri alþjóðavæðingu sem ofangreindar tölur endurspegla," segir greiningardeildin.