Hagnaður Storebrand fyrir skatt á fjórða ársfjórðungi 2007 nemur 676 milljónum norskra króna, eða tæplega 8,2 milljörðum íslenskra króna, og rúmum 2 milljörðum norskra króna, eða rúmlega 25 milljörðum íslenskra, þegar árið er tekið í heild sinni, samkvæmt nýbirtum afkomutölum fyrirtækisins. Einskiptistekjur upp á 215 milljónir króna á fjórða ársfjórðungi höfðu jákvæð áhrif á afkomuna. Bréf í Storebrand hafa hækkað um 10% frá því að tilkynningin birtist.

Í tilkynningu frá Storebrand kemur fram að búið er að leggja lokahönd á kaupin á SPP, líftrygginga- og lífeyrisdeild sænska Handelsbanken, og búið að leggja grunn að samþættingu starfsemi beggja félaganna. Stjórn Storebrand hyggst leggja til við hluthafafund að greiddar verði 1,2 norskar krónur á hlut í arð, eða samtals 534 milljónir norskra króna, rúmlega 6,6 milljarðar íslenskra, og falla tæp 30% þess til Kaupþings og Existu.

Storebrand segir að góður vöxtur sé á sviði lífeyris- banka– og skaðabótatryggingarekstrar í fyrirtækinu.