Tap norska fjármála- og tryggingafélagsins Storebrand, sem var að hluta til í eigu Exista þangað til um miðjan október, nam alls 1.205 milljónum norskra króna á þriðja ársfjórðungi eða því sem samsvarar um 21,5 milljörðum íslenskra króna.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá félaginu í morgun.

Þar kemur fram að erfiðar aðstæður á fjármálamörkuðum geri félaginu erfitt um vik um þessar mundir. Þannig námu afskriftir félagsins á tímabilinu um 2,5 milljarði norskra króna.

Miðað við tapið nú hefur félagið tapað um 478 milljónum norskra króna á milli ára en félagið hagnaðist um 193 milljónir norskra króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs.

Eins og fyrr segir var Storebrand að hluta til í eigu Exista en fyrr í þessum mánuði seldi Exista tæpan 9% hlut sinn í félaginu.