Norska fjármála- og tryggingafyrirtækið Storebrand, sem Kaupþing og Exista eiga samanlagt nær 29% hlut í, þarf að borga afar háa vexti af láni sem það tók til þess að fjármagna kaupin á sænska líftryggingafélaginu SPP.

Storebrand tók lán upp á 2,4 milljarða norskra króna eða um 30 milljarða íslenskra króna vegna kaupanna á SPP og fram kemur á vef E24 Næringsliv að félagið greiði 10-11%  vexti.

Þá er fullyrt að Storebrand þurfi að taka um 46 milljarða íslenskra króna lán til viðbótar innan skamms tíma vegna kaupanna á SPP en hinn mikli fjármagnskostnaður mun væntanlega koma niður á hagnaði félagsins.

Eiga að skoða sölu

Því hafa verið uppi vangaveltur að Storebrand þurfi að sækja sér aukið fé með hlutafjáraukningu eða með að selja hluta af starfsemi sinni.  Á sínum tíma var nokkuð um það rætt að Kaupþing hefði áhuga á að eignast bankastarfsemi Storebrand og aldrei að vita nema sá möguleiki opnist; þannig segir Jan Erik Gjerland sérfræðingur ABG Sunndal Collier í Noregi, að Storebrand muni hugsanlega selja bankastarfsemi sína til þess að afla sér fjár vegna kaupanna á SPP.

„Stjórn félagsins ætti að skoða hvaða rekstareiningar það er með á efnahagsreikningnum sem þeir geta selt og meta það hvort þeir telji að bankinn eigi að vera hluti af hinu nýja félagi," segir Gjerland við Dagens Næringsliv.

Hvorki stjórn Storebrand, en í henni situr Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, né stjórnendur félagsins hafa viljað tjá sig við norska fjölmiðla um hugsanlaga sölu á bankastarfsemi Storebrand.