Nokkur dæmi eru um á síðustu mánuðum að efnaðir Íslendingar hafi fjárfest fyrir tugi milljóna króna í rafmyntum.

Hlynur Þór Björnsson, framkvæmdastjóri Bálka miðlunar, segir að hugarfarsbreyting sé að eiga sér stað í garð rafmynta hér á landi.

Vilja dreifa eignasafninu

Hlynur segir algengt að viðskiptavinir hafi áhuga á að verja um 100 til 500 þúsund krónum í kaup á rafmyntum. „En þetta hefur líka verið stóreignafólk sem vill dreifa áhættunni og sér kosti í að eiga nokkur prósent af eignasafni sínu í rafmyntum. Við getum og höfum verið að aðstoða fólk með viðskipti fyrir á milli 50 og 100 milljónir króna.“

Bálkar miðlun fékk nýlega starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu til að veita aðstoð í viðskiptum með rafmyntir. Margir viðskiptavinanna séu komnir yfir miðjan aldur og séu vanir að fá ráðgjöf í fjárfestingum. Þetta sé hópur sem vart hafi hugleitt kaup á rafmyntum fyrir nokkrum árum.

Hugi vel að áhættunni

Hlynur segir mikilvægt að þeir sem séu að velta fyrir sér fjárfestingu í rafmyntum hugi vel að áhættunni sem sé fólgin í kaupum á þeim. Bæði hvað varðar sveiflur á verði þeirra og hvernig geyma eigi rafmyntir á öruggan hátt. Mörg dæmi séu þess að rafmyntir sem ekki hafi verið geymdar með réttum hætti hafi glatast. „Við bjóðum líka upp á eigna- og áhættustýringu sem byggir á gervigreind,“ segir Hlynur.

Frá ársbyrjun 2016 og fram til desember 2017 hækkaði verð Bitcoin úr ríflega 400 dollurum í tæplega 20 þúsund dollara. Eftir það hríðféll Bitcoin og var komið niður í ríflega 3.000 dollara ári síðar. Bitcoin tók að hækka á ný á síðasta ári og sveiflaðist í kringum 12.000 dollara í júlí og ágúst 2019. Rafmyntin tók skarpa dýfu í mars á þessu ári líkt og hlutabréfamarkaðir víða um heim. Þann 12. mars féll Bitcoin um helming í verði þegar mest var og fór verðið undir 5.000 dollara. Síðan þá hefur Bitcoin tekið að hækka á ný og stendur nú í um 12.000 dollurum. Þeir sem kaupa rafmyntir þurfa að vera undir það búnir að verð þeirra geti sveiflast um tugi prósenta á skömmum tíma.

Nánar er fjalað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .