Umhverfisstofnun gaf í vikunni út starfsleyfi fyrir Dýrfisk hf. til framleiðslu á allt að 4.000 tonnum á ári af regnbogasilungi í Ísafjarðardjúpi, við Snæfjallaströnd. Útlit er fyrir stórfellt eldi á regnbogasilungi í Djúpinu því Hraðfrystihúsið Gunnvör hf. stefnir að því að vera með 6.800 tonna eldi þar.

Þó Dýrfiskur hafi fengið starfsleyfi frá Umhverfisstofnun þarf fyrirtækið einnig að fá rekstrarleyfi frá Matvælastofnun en ekki er búið að afgreiða það. Landssamband veiðifélaga hefur beitt sér mjög gegn sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi og meðal annars bent á að starfsleyfi Dýrfisks stangist á við lög um fiskeldi og þá sérstaklega að ekki hafi verið gert burðarþolsmat á áður en leyfið var gefið út.