Heildarkostnaður við gatnagerð í Hveragerði á næstu tveimur árum er áætlaður rúmar 194 milljónir króna. Á fundi bæjarráðs Hveragerðis nýlega lagði bæjarstjóri fram kostnaðaráætlun fyrir framkvæmdir í gatnagerð í Hveragerði og Samþykkti meirihluti ráðsins að fela bæjarstjóra og byggingarfulltrúa útboð á öllu verkinu í einu og hefur auglýsing þess efnis verið birt.

Með gatnagerðinni verða til 70 nýjar íbúðarlóðir í vesturhluta bæjarins við Hraunbæ, Birkimörk og Valsheiði, en tvær þær síðast töldu eru nýjar götur.
Jafnframt er gert ráð fyrir gatnagerð við Fljótsmörk þar sem stefnt er að byggingu 17 íbúða húss á næstu mánuðum. Áfram verður haldið með lagningu Sunnumerkur til austurs og mun hún þá tengjast Grænumörk. Með lagningu Sunnumerkur verður til gott framboð af verslunar- og þjónustulóðum í bænum.

Loks ber þess að geta að úboðið felur í sér frágang á Dynskógum og hluta Varmahlíðar. Verður sú framkvæmd íbúum gatnanna vafalaust kærkomin enda hafa margir þeirra búið við umræddar götur ófrágengnar um áratuga skeið.

Við samningagerð að afloknu útboði verður gengið endanlega frá tímaáætlun verksins í heild en stefnt er á að hefja það nálægt næstu áramótum og ljúka því á árinu 2006.