Greiningaraðilinn FBR Capital Markets sagði í gær að framleiðsla á krúnudjásni Apple, iPhone, gæti dregist saman um 40% á síðasta fjórðungi ársins frá hinum þriðja. Reuters segir frá þessu í kvöld.

„Fyrri athuganir bentu til þess að framleiðsla á iPhone myndi dragast saman um 10% á fjórða fjórðungi,” segir í umsögn FBR. „En nýjustu athuganir okkar benda til þess að framleiðslan gæti dregist saman um allt að því 40%.” Á meðan fyrirtækið þarf vissulega að framleiða síma til að anna eftirspurn utan landssteinana, væri innlend eftirspurn líklega að dragast saman vegna mikillar samkeppni og minnkandi heildareftirspurnar neytenda.

Apple vildi ekki tjá sig um greiningu FBR. Fyrirtækið tilkynnti um 26% aukningu í hagnaði á síðasta uppgjörsfjórðungi, sem var nokkuð umfram væntingar greiningaraðila. Á fjórðungnum seldi Apple alls 6,89 milljónir eintaka af iPhone, fleiri en framleiðandi BlackBerry, Research in Motion.