Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt konu á fimmtugsaldri, fyrrum  starfsmann Tryggingastofnunar ríkisins, í þriggja ára fangelsi og til að greiða TR 75,7 milljón krónur auk vaxta, en starfsmaðurinn var fundinn sekur um að hafa svikið stofnunina um það fé ásamt á annan tug aðstoðarfólks.

Segir Héraðsdómur að um sé að ræða stórfellt brot í opinberu starfi.

Aðrir ákærðir fengu skemmri dóma, þyngstur var tólf mánaða dómur yfir syni starfsmannsins. Alls voru þrettán af fimmtán sakborningum sakfelldir fyrir aðild að málinu. Refsingar voru í mörgum tilvikum óskilorðsbundnar.

Kom á fót umfangsmikilli fjársvikastarfsemi

Konan sem fékk þyngsta dóminn starfaði sem þjónustufulltrúi hjá TR og hafði með höndum endurgreiðslur á útlögðum kostnaði vegna læknisþjónustu, lyfjakaupa og sjúkraþjálfunar.

Í því fólst að taka við greiðslukvittunum frá viðkomandi sjúklingum, meta hverju sinni hvort heimild væri til endurgreiðslu hluta kostnaðar, í þeim tilvikum skrá beiðni þar að lútandi í tölvukerfi TR, með tilgreindu númeri bankareiknings og fjárhæð endurgreiðslu, prenta út endurgreiðslukvittanir því til samræmis og afhenda gjaldkera, sem síðan lagði viðkomandi fjárhæð inn á reikning hlutaðeigandi sjúklings.

Hún útbjó á frá ársbyrjun 2002 til sumarsins 2006 alls 781 tilhæfulausa kvittun fyrir útborgun og blekkti gjaldkera stofnunarinnar til að greiða að tilefnislausu úr sjóðum stofnunarinnar hátt í 76 milljónir króna, sem síðan voru lagðir inn á reikninga vitorðsmanna hennar.

Af þeirri upphæð hafði hún um 30 milljónir sjálf upp úr krafsinu.

Við rannsókn lögreglu játaði konan sök. Hún rakti upphaf málsins til þess að hún hafi verið í fjárþröng, djúpt sokkin í fíkniefnaneyslu og því leiðst út í fjársvik. Við ákvörðun refsingar tók Héraðsdómur tillit til þess að hún hefði játað strax í upphafi og lagt sitt af mörkum við að upplýsa málið.

„Á hinn bóginn verður ekki horft framhjá því að um stórfellt brot í opinberu starfi var að ræða, en ákærða kom á fót umfangsmikilli fjársvikastarfsemi, sem teygði anga sína víða og stóð samfellt yfir í nærri fjögur og hálft ár,” segir m.a. í dóminum.

Um sé að ræða einbeittan brotavilja og tjónið einkar yfirgripsmikið og óbætt.