Betur fór en á horfist með flóðið sem kom undan Gígjökli í Eyjafjallajökli í kvöld. Almannavarnir höfðu sett í gang skyndirýmingu á hættusvæðinu vegna gríðarlegs flóðs sem kom undan jöklinum. Mikill krapi fylgdi flóðinu sem breiddi úr sér alveg yfir undir veg í Fljótshlíð. Þrátt fyrir mikið flóð héldu varnargarðar þó sumstaðar sullaðist yfir þá.

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur flaug yfir svæðið með Landhelgisgæslunni og sagði í fréttum RÚV að búast megi við fleiri hlaupum á meðan gosið stendur yfir. Teknar voru myndir með ratsjármyndavél af gígunum á toppi eldfjallsins, en þar eru nú þrjú gígop í jökulhettunni. Kröftugt sprengigos er í gígunum sem þeytir ösku upp í háloftin. Er búist við að flugumferð truflist víða um Evrópu af morgun af þeim sökum og eru fjölmargir  flugvellir lokaðir í Norður- Evrópu og allt suður til Frakklands. Víða um lönd mun flug ekki verða athugað að nýju fyrr en undir hádegi á morgun.