Landsnet hyggst leggja í 35 milljarða króna fjárfestingu í raforkuflutningskerfinu á næstu þremur árum. Er þetta mikil aukning því á síðustu tveimur árum var samtals fjárfest fyrir 8 til 9 milljarða króna.  Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir að fyrirtækið standi vel fjárhagslega og að til að byrja með verði framkvæmdirnar fjármagnaðar með eigið fé.

„Síðan metum við stöðuna þannig að við eigum mjög góða möguleika á að fjármagna okkur með hagkvæmum hætti á lánamarkaði," segir Guðmundur Ingi. „Megin þunginn í lánsfjármögnun verður á næsta ári."

Guðmundur Ingi segir að sumar af þessum fjárfestingum sem Landsnet sé að fara í á næstu þremur árum séu verkefnadrifnar — tengist stórframkvæmdum.

„Það er til dæmis verið að reisa kísilverksmiðjur í Helguvík og netþjónabúin á svæðinu eru að stækka. Það sama má segja um Bakka við Húsavík en þar er líka verið að reisa kísilverksmiðju og auðvitað Þeistareykjavirkjun. Þessar framkvæmdir kalla á auknar fjárfestingar í flutningskerfinu."

Tengingar milli Suður- og Norðurlands hafa verið töluvert í umræðunni. Guðmundur Ingi segir að þar séu tveir kostir í boði. Annars vegar að fara með línu yfir Sprengisand eða samhliða byggðalínunni, sem er helmingi lengri leið.

„Byggðaleiðin er mjög löng og fyrsta mat á umhverfisáhrifum bendir til þess að hún hafi meiri umhverfisáhrif en hálendisleiðin. Við erum að meta þessa kosti og í framhaldinu verður tekin upplýst ákvörðun um það hvor leiðin verður farin. Í dag vitum við það ekki."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .