*

laugardagur, 12. júní 2021
Innlent 30. maí 2018 13:20

Stórframkvæmdir á Keflavíkurflugvelli

Gert ráð fyrir að árið 2021 verði búið að byggja 60.000 fermetra við flugvöllinn.

Ritstjórn
Miklar framkvæmdir eru fram undan á Keflavíkurflugvelli

Yfirgripsmiklar framkvæmdir eru fram undan á Keflavíkurflugvelli. Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri tækni- og eignasviðs Isavia á Keflavíkurflugvelli, kynnti þá uppbyggingaþróun sem fram undan er á flugvellinum á opnum morgunfundi Isavia sem fram fór á Hilton Reykjavík Nordica í morgun.  

Landgangur flugvallarins mun vera breikkaður til muna, eða um 30.000 fermetra, verslunarsvæði verður stækkað, ný landamæri byggð og biðsvæði og brottfararhlið bætt.

Spá sem gerð var fyrir þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar árið 2015 sýnir að flugvöllurinn í Keflavík hefur þegar náð þeim fjölda farþega sem gert var ráð fyrir að kæmu til Íslands árið 2030.

Ljóst er að Isavia stendur frammi fyrir miklum áskorunum á meðan framkvæmdum stendur, þá sérstaklega er varða flæði farþega og farþegaupplifun.

Áætlanir gera ráð fyrir að frá árinu 2012 til ársins 2021 verði búið að byggja það sem samsvarar næstum heilli Smáralind, eða um 60.000 fermetrum. Þá verða fjarstæði flugvéla á við 22 og hálfan fótboltavöll.

Að lokum kynnti Guðmundur Daði nýja upplýsingasíðu um framkvæmdir við Keflavíkurflugvöll. Síðan verður uppfærð eftir því sem verkefninu vindur fram.