Ný könnun Samtaka atvinnulífsins (SA) á meðal 516 aðildarfyrirtækja gefur til kynna að störfum á almennum vinnumarkaði muni fækka um 0,3% á þessu ári en fjölga á ný á næsta ári. Brottfall launagreiðslna af vinnumarkaði vegna fækkunar starfa nemur þremur milljörðum króna.

Í könnuninni kemur m.a. fram að langflestir stjórnenda fyrirtækja sem aðild eiga að SA (59%) búast þó við óbreyttum starfsmannafjölda á næstu 12 mánuðum. 22% fyrirtækja hyggjast fjölga starfsfólki á næstu 12 mánuðum en 19% hyggjast fækka starfsfólki. Staða atvinnugreina er misjöfn. Gangi þetta eftir fjölgar störfum á næsta ári.

Í sjávarútvegi gera fjögur af hverjum tíu fyrirtækjum ráð fyrir að fækka starfsfólki, 53% ráðgera engar breytingar á starfsmannafjölda en aðeins 7% búast við fjölgun. Einnig búast fleiri verslunar- og þjónustufyrirtæki við að fækka starfsfólki.

Í öðrum atvinnugreinum búast fleiri fyrirtæki við fjölgun starfsmanna en fækkun þeirra. Einkum hafa ferðaþjónustufyrirtæki uppi áform um fjölgun starfsmanna en rúmur þriðjungur þeirra hyggst fjölga starfsfólki en aðeins 7% fækka.

Könnun SA