Störfum í Bandaríkjunum fjölgaði um 217 þúsund í maí samkvæmt opinberum tölum. Það er heldur minna en spár höfðu gert ráð fyrir, að því er fram kemur á vef BBC . Þetta er þó fjórði mánuðurinn í röð þar sem fleiri en 200 þúsund ný störf verða til í Bandaríkjunum.

Talið er að með þessari fjölgun starfa sé búið að endurheimta öll 8,7 milljón störfin sem fólk í Bandaríkjunum missti vegna efnahagskreppu síðustu ára. Það þýðir þó ekki að búið sé að bæta úr öllu atvinnuleysi því íbúum hefur fjölgað um sjö prósent á sama tímabili. Atvinnuleysi mældist 6,3 prósent í maí og helst því óbreytt frá því í apríl.

Þrátt fyrir að ágætlega gangi að fjölga störfum þá hækka launin ekki samhliða því. Ástæðan er fyrst og fremst sú að þau fjölmörgu nýju störf sem verða til í hverjum mánuði eru að stórum hluta láglaunastörf, til dæmis í hótel- eða veitingabransanum.

Sérfræðingar segja þessar nýju tölur um atvinnumál endurspegla traustan bata bandaríska efnahagskerfisins. Margt bendi til þess að hagvöxtur geti náð þremur prósentum á yfirstandandi ársfjórðungi.