Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, segir að störfum hjá bönkum og sparisjóðum hér á landi hafi fækkað á bilinu 250 til 300 á þessu ári.

„Helmingur af því er uppsagnir. Annað eru störf sem ekki hefur verið ráðið í þegar þau losna,“ segir hann.

Glitnir tilkynnti í dag um uppsagnir 88 starfsmanna í apríl og maí. Það telst vera hópuppsögn og var hún því samkvæmt lögum tilkynnt til stéttarfélagsins og Vinnumálastofnunar.

Um 5.500 manns voru í Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja um síðusut áramót.

Friðbert segir að fjöldauppsögn sem þessi hafi ekki átt sér stað hjá fjármálafyrirtækjum frá því árið 1994, en þá hafi Landsbankinn sagt upp fólki. Fram til þessa hafi starfsmannavelta dugað til að ná fram hagræðingu.

Hann segir aðspurður að honum sé ekki kunnugt um aðrar slíkar hópuppsagnir hjá öðrum fjármálafyrirtækjum.