Goldman Sachs, Microsoft, Starbucks og ríflega 200 önnur fyrirtæki hafa lýst yfir stuðningi við hjónabönd samkynhneigðra í Bandaríkjunum. Stuðningur fyrirtækjanna setur þrýsting á stjórnvöld þeirra fylkja þar sem hjónavígslurnar hafa enn ekki verið lögfestar.

Í júnímánuði felldi Hæstiréttur Bandaríkjanna úr gildi umdeilt ákvæði í lögum sem segir hjónaband vera milli manns og konu. Samkynhneigðir og aðrir sem barist hafa fyrir auknum réttindum samkynhneigðra fögnuðu niðurstöðunni ákaft.

Niðurstaðan hefur einnig leitt til fjölgunar stuðningsaðila, þar á meðal stórra fyrirtækja í Bandaríkjunum, að því er Bloomberg greinir frá. Í umfjöllun Bloomberg er bent á að fyrir fimm árum mátti telja fyrirtækin sem studdu við málstaðinn á annarri hendi. Þá var um að ræða mál sem rekið var fyrir neðri dómstól í Kaliforníu.

Löggjafar fylkja á borð við Texas, Flórida og Michigan, sem aðeins heimila hjónavígslur gagnkynhneigðra, finna nú aukinn þrýsting á lagabreytingar. Minna en helmingur fyrirtækja í Standard & Poor´s 500 vísitölunni eru með höfuðstöðvar í fylkjum sem heimila samkynhneigðum að giftast. Haft er eftir sérfræðingi í samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja hjá Háskólanum í Kaliforníu að löggjöf um hjónavígslur geti haft áhrif á ákvarðanir fyrirtækja um hvaðan þau reka starfsemi sína, þar sem innan flestra þeirra séu í gildi starfsreglur sem banna hvers konar mismunun á grundvelli kynhneigðar.