Af um 100 mismunandi aðilum sem vinna að þróun bóluefnis gegn kórónuveirufaraldrinum, hafa átta fyrirtæki þegar hafið prófanir á fólki, meðan önnur hafa byrjað undirbúning á því að vinna lyfið í stórum stíl þegar það verður tilbúið.

Meðal þeirra fyrirtækja sem sögð eru hafa byrjað að þróa bóluefni eru Moderna og Pfizer, en Johnson & Johnson, AstraZeneca og Sanofi SA eru að byggja upp getuna til að framleiða hundruð milljóna skammta af lyfjunum.

Eru stjórnvöld í Bandaríkjunum sem og fyrirtækin að stefna á að geta byrjað að koma fullbúnu bóluefni til almennrar notkunar strax í haust, en sum fyrirtækin hafa heitið því að koma milljónum skammta út strax á þessu ári að því er WSJ fjallar um.

Hins vegar er ekki hægt að tryggja að lyfið virki vel með svona hröðum undirbúningi, og er bent á að lyfjaþróun bæði Pfizer og Moderna nú sé byggð á nýrri tækni sem hafi ekki verið fullsannreynd.

Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna er sögð ætla að vinna hratt að því að heimila notkun bóluefnanna, jafnvel þó stofnunin muni ekki hafa jafnmiklar prófanir á bakvið lyfið eins og venjan sé.

Sem dæmi um það er nefnt að stofnunin hafi leyft notkun lyfsins remdesivir frá Gilead Sciences fyrirtækinu 1. maí síðastliðinn, eftir að rannsókn sýndi að lyfið stytti biðtíma fólks með sjúkdóminn á sjúkrahúsum.

Síðan gæti komið upp barátta um hverjir fái aðgang að fyrstu skömmtunum, en búist er við að Bandaríkjamenn muni njóta forgangs hjá J&J, Moderna og Sanofi. Þar fái heilbrigðisstarfsmenn og aðrir svokallaðir framlínustarfsmenn forgang, enda ólíklegt að magnið verði nógu mikið fyrst í stað til að bólusetja alla Bandaríkjamenn, hvað þá heimsbyggðina alla.

Á móti kemur þá hafa góðgerðarsamtökin Coalition for Epidemic Preparedness Innovations, sem berjast fyrir jöfnum aðgangi að bóluenfum, gefið meira en 380 milljónir dala, andvirði 55,6 milljarða íslenskra króna, til að aðstoða við þróun bóluefnis sem myndi verða framleitt í mörgum löndum til dreifingar víða um heim.