*

þriðjudagur, 27. október 2020
Erlent 24. júlí 2020 10:04

Stórhagnaðist á Wirecard skortsölu

Jim Chanos græddi rúmlega 100 milljónir dala á veðmáli gegn Wirecard en hefur á móti tapað verulega á Tesla.

Ritstjórn
epa

Jim Chanos, þekktur skortsali, græddi rúmlega 100 milljónir dollara á því að veðja gegn þýska fjártæknifyrirtækinu Wirecard. 

„Ef þú ert í grunninn skortsali, þá var Wirecard sagan klassísk,“ er haft eftir Chanos í frétt Financial Times. „Það voru stikkorð, tölurnar pössuðu ekki og viðskiptamódelið virtist ekki ganga upp.“

Chanos, sem er hvað þekktastur fyrir að hafa spáð falli Enron fyrir tveimur áratugum, byrjaði að skortselja hlutabréf Wirecard á síðasta ári. Hann setti meira undir þegar FT birti gögn í október á síðasta ári sem gáfu til kynna að hagnaður dótturfyrirtækja Wirecard hefði verið blásinn upp og að nöfn viðskiptavina sem félagið sendi til endurskoðunarfyrirtækisins EY hafi ekki verið til. 

Sjá einnig: Wirecard týndi 1,9 milljörðum evra

Annað merki um að það væri „eitthvað verulega mikið væri að“ hjá Wirecard var þegar sérstök endurskoðun KPMG mistókst að leysa spurningar um bókhald þýska greiðslufyrirtækisins. EY hefur einnig legið undir gagnrýni fyrir að hafa undirritað reikningsskil Wirecard í meira en áratug. 

„Þegar fólk spyr okkur hverjir voru endurskoðendurnir, þá segi ég alltaf ‚hverjum er ekki sama?‘,“ er haft eftir Chanos. „Nánast hvert einasta svik hefur verið endurskoðað hjá stóru endurskoðunarfyrirtæki.“ 

Hefur viðhaldið skortstöðu á Tesla

Kynikos Associates, fyrirtæki sem Chanos hefur rekið í meira en þrjá áratugi, framkvæmdi viðskiptin í gegnum nokkra sjóði félagsins, samkvæmt fólki með þekkingu á málinu. 

Þrátt fyrir að Kynikos hafi hagnast á Wirecard, þá hefur fyrirtækið tapað gífurlega á að skortselja hlutabréf rafbílaframleiðandanum Tesla. Frá því að Kynikos framkvæmdi viðskiptin fyrir fimm árum hefur hlutabréfaverð Tesla sexfaldast. 

„Ég lýsi Tesla sem menningu af blekkingu,“ segir Chanos, sem hefur viðhaldið skortstöðu sinni gegn bílaframleiðandanum. Hann tók þó fram að það væri mikill munur á Tesla og Wirecard en bætti við að hann teldi „fyrirtækið fága (e. burnish) niðurstöður sínar með bókhaldsaðferðum“.

Chanos segir að ef horft er framhjá kolefnisheimildum sem Tesla selur til samkeppnisaðila, þá hafi rafbílaframleiðandinn aldrei skilað hagnaði. Fyrirtækið sé einnig verulega skuldsett og í stífri samkeppni. „Svo blekkir það viðskiptavini með því að selja sjálfkeyrandi bíla sem eru ekki til.“

Elon Musk, stofnandi Tesla, hefur áður sagt að að „skortsala eigi að vera ólögleg“. 

Stikkorð: Tesla EY Wirecard Jim Chanos