Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að hann hefði enga trú á því að matarverð hækki um 30% á næstu vikum. Umsamdar kjarabætur í nýumsömdum samningum munu skila sér í hækkun upp á 2-3%.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins greinir frá þessu í dag.

Fulltrúar félags íslenskra stórkaupmanna hafa þó sagt að von sé á 20-30% hækkun matarverðs, vegna hækkandi innflutningsverðs, hærra afurðaverðs á heimsmarkaði og launahækkana í kjarasamningum.

Vilhjálmur sagði í samtali við fréttastofuna að verðbólgugusu væri að vænta, en í kjölfarið verði verðbólga lág. Eftirspurn muni minnka og því muni fyrirtæki gæta sín frekar í verðlagningu.