Sænski hljóðbókarisinn Storytel, sem keypti nýverið 70% hlut í Forlaginu, er í mikilli sókn. Hlutabréfaverð fyrirtækisins hafa hækkað um 30% í júlí og 68% frá áramótum. Markaðsvirði félagsins er orðið um 230 milljarðar íslenskra króna. Líkt og fjölmörg stafræn afþreyingarfyrirtæki hefur Storytel gengið betur en vonir stóðu til í COVID-19 heimsfaraldrinum. Áskrifendum fjölgar umfram áætlanir og eru nú orðnir tæplega 1,3 milljónir á heimsvísu. Félagið er þó hvergi nærri hætt og stefnir á að tífalda umsvif sína á næsta áratug. Þó er enn tap á rekstri félagsins utan Norðurlandanna. Félagið hefur einsett sér að verða stærsti útgefandi hljóðbóka í þeim löndum sem það hefur starfsemi.

Storytel var stofnað í Svíþjóð árið 2005 af Svíanum Jonas Tellander og Íslendingnum Jóni Baldri Haukssyni undir nafninu Bokilur. Tellander hefur verið forstjóri félagsins frá upphafi. Jón hefur búið í Svíþjóð frá barnæsku. Hann stýrði tæknimálum Storytel fram til ársins 2017 þegar hann lét af störfum hjá fyrirtækinu. Þá átti hann um 5% hlut í fyrirtækinu. Rekstur Storytel gekk hægt fyrstu árin. Snjallsímabyltingin síðustu ára og ódýrari gagnaflutningar undanfarin ár hafa skapað forsendur fyrir vöxt félagsins. Í fjárfestakynningu sem félagið birti fyrr á þessu ári kom fram að hljóðbókamarkaðurinn á heimsvísu hefði stækkað úr 6 milljörðum sænskra króna í 20 milljarða síðastliðinn áratug. Af þeim markaði hefði Storytel um 5% markaðshlutdeild en um 15% að frátöldum Bandaríkjunum. Stjórnendur Storytel sjá fram á að hlustun á streymisveitur muni halda áfram að aukast næstu árin. Ef fram heldur sem horfir muni hljóðbækur senn verða vinsælli miðill en lestur bóka.

Hingað til hafi félagið einungis skilað hagnaði í heimalandinu Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Íslandi og Hollandi.  Forsvarsmenn félagsins segja þó að stutt sé í að lönd í Austur-Evrópu bætist við og að rekstrartap utan Norðurlandanna fari minnkandi. Þó er enn töluvert tap á rekstrinum þar sem félagið setur stefnuna á vöxt umfram hagnað eins og sakir standa. Til að standa undir vextinum fór félagið meðal annars í 948 milljóna sænskra króna hlutafjáraukningu fyrr á þessu ári, jafnvirði um 14,7 milljarða króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .