Kísilverð hefur verið sögulega lágt í vetur líkt og á mörgum öðrum hrávörum. Þá hefur gengið hægara en vonast var til að ná fullum afköstum í kísilverinu. Lífeyrissjóðir hafa fært niður virði hlutafjár sínu í PCC, lengt í lánum og gefið eftir vexti líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í vikunni.

Bera sjálf tjón af óveðri

Rúnar Sigurpálsson, framkvæmdastjóri PCC á Bakka, segir framleiðslu kísilversins vera á leið í rétta átt. „Framleiðslan er á þokkalegu róli og hefur verið að mjakast upp á við. Í nánast allri framleiðslu tekur það tíma að ná jafnvægi á ferlum. Það hafa verið tímabil þar sem við náum fullum afköstum og þau tímabil þurfum við að lengja,“ segir Rúnar. „Veðurfarið hefur ekki hjálpað okkur,“ segir Rúnar. Óveðrið sem gekk yfir landið í desember varð til þess að kísilverið varð rafmagnslaust um tíma. Rúnar segir að PCC beri tjónið af því sjálft.

Sjá einnig: Milljarðakröfur fljúga á víxl á Bakka

Verð á kísli hefur þó þokast upp á við síðustu vikur eftir að kórónuvírusinn kom upp í Kína. Vírusinn hefur haft í för með sér að tímabundið hefur dregið úr framleiðslu í landinu. Rúnar bendir á að á 60-70% af kísilframleiðslu heimsins sé í Kína. Því ráði atburðir þar miklu um þróun á kísli.

Kísilverum lokað víða um heim

Kísilverið var eitt fjögurra kísilvera sem til stóð að reisa hér á landi en hin voru Thorsil og United Silicon í Helguvík og Silicor Materials á Grundartanga. Framkvæmdir hófust aldrei við kísilver Thorsil og Silicor Materials. Arion banki afskrifaði nær fjóra milljarða króna af bókfærðu virði kísilvers United Silicon á síðari hluta ársins 2019.

Sjá einnig: 23 milljarða kröfur í þrotabú United Silicon

Alls nemur tap Arion banka á kísilverinu á annan tug milljarða króna. Bankinn tók kísilverið yfir eftir að það var lýst gjaldþrota fyrir tveimur árum og hefur reynt að gera endurbætur á verksmiðjunni og hefja framleiðslu á ný til að geta selt verksmiðjuna. Arion banki hefur bent á að kísilverum hafi verið lokað undanfarin misseri vegna lágs afurðaverðs. Auk þess séu mörg kísilver ekki rekin á fullum afköstum.

Öll stóriðja í vanda

Líkt og Morgunblaðið greindi frá í vikunni hefur Rio Tinto til skoðunar að loka álverinu í Straumsvík og þrýstir á um við ríkið og Landsvirkjun að rafmagnsreikningur álversins verði lækkaður. Áform um að selja álverið hafa ekki gengið eftir enn sem komið er. Norsk Hydro hugðist kaupa það en féll frá því eftir andstöðu evrópskra samkeppnisyfirvalda við kaupin. Reuters greindi frá því síðasta sumar að þrír aðilar væru áhugasamir um álverið.

Slökkt var á stærsta ofni járnblendis Elkem á Grundartanga síðasta sumar vegna erfiðra markaðsaðstæðna og starfsfólki var fækkað. Ítalska móðurfélag TDK Foil Iceland, áður Becromal, sem rekur aflþynnuverksmiðju á Krossanesi í Eyjafirði, af skrifaði í byrjun síðasta árs 5 milljarða króna lán til íslenska félagsins og færði niður bókfært virði hlutafjár íslenska félagsins að fullu á síðasta ári.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .