Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti í apríl í fyrra nýtt aðalskipulag, þar sem gerðar voru breytingar á iðnaðarsvæðinu í Helguvík. Samkvæmt skipulaginu var lagt bann við frekari mengandi iðnaði á svæðinu. Í málefnasamningi nýs bæjarstjórnarmeirihluta Samfylkingar, Beinnar leiðar og Framsóknarflokks í sveitarfélaginu er lögð frekari áhersla á málefnið. Í samningnum segir að framboðin þrjú sem mynda meirihluta í bæjarstjórn hafni frekari mengandi stóriðju í Helguvík. Þá kemur fram að nýtt framtíðarráð muni fjalla um starfsemina og leitað verði lausna svo tryggja megi að atvinnuuppbygging verði ávallt í sátt við íbúa.

Breytt stefna bæjarstjórnar Reykjanesbæjar kemur í kjölfarið á samfelldri hrakfallasögu kísilvers United Silicon í Helguvík. Félagið fékk greiðslustöðvun í ágúst 2017 eftir síendurteknar bilanir í í búnaði verksmiðjunnar með tilheyrandi loft- og lyktarmengun sem endaði með því að Umhverfisstofnun ákvað að stöðva starfsemi verksmiðjunnar í september á síðasta ári. Fram að því hafði stofnuni n n i borist vel á annað þúsund kvartanir frá íbúum Reykjanesbæjar vegna mengunar. United Silicon var svo lýst gjaldþrota í janúar 2018 og var kísilverið fært í dótturfélag Arion Banka, Eignarbjarg, en Arion Banki var aðallánveitandi United Silicon.

Mögulegt skaðabótamál

Af þeim samtölum sem Viðskiptablaðið átti við lögmenn er ljóst að um mjög flókið mál yrði að ræða kæmi til þess að skaðabótamál færi fyrir dómstóla. Gagnvart sveitarfélaginu myndi málið að öllum líkindum snúast um riftun á lóðaleigusamningi auk þess hvort að í breytingu á deiliskipulagi felist í raun eignaupptaka. Skaðabótaskylda gæti því skapast vegna kostnaðar við undirbúningsvinnu, byggingarkostnað, fjárfestingu í tækjum auk væntrar arðsemi af rekstrinum. Gætu þessar kröfur hlaupið á tugum milljarða. Þá benti einn viðmælandi á að bæjarfélagið myndi verða af töluverðum tekjum ef áform um stóriðjustarfsemi í Helguvík yrðu stöðvuð.

Arion banki á því mikilla hagsmuna að gæta í þessu máli. Bankinn hefur nú þegar afskrifað 4,8 milljarða króna vegna United Silicon auk þess sem kostnaður bankans á greiðslustöðvunartímabilinu nam um einum milljarði króna. Eru helstu eignir Arion sem tengjast United Silicon metnar á um 5,4 milljarða króna í ársreikningi bankans. Forsvarsmenn Arion banka vildu ekki tjá sig um málið að svo stöddu. Þá hyggst Thorsil einnig reisa samskonar verksmiðju á svæðinu. Ekki náðist í forsvarsmenn fyrirtækisins við vinnslu þessarar fréttar en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er enn unnið að því að hefja byggingu kísilverksmiðju fyrirtækisins í Helguvík.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .