Ef frumvarp um orkuverð til stóriðju sem lagt var fram á Alþingi 1983 hefði orðið að lögum væri stóriðjan á Íslandi að greiða 6,40 krónur á kílóvattstundina eða 65% af raforkuverði til almennra nota en ekki á milli 20-30% eins og nú virðist raunin.

Talið hefur verið eðlilegt að stóriðja greiddi umtalsvert lægra verð fyrir raforkuna en almenningur sökum söluöryggis og magnkaupa til mjög langs tíma. Athyglisvert er samt að skoða þetta í ljósi umræðu á Alþingi Íslendinga á árunum 1982 til 1983. Þá komu fram hugmyndir um að lögbinda orkuverð til stóriðju á þann hátt að það yrði aldrei lægra en 65% af orkuverði til almennings.

Í umræðum um frumvarp sem lagt var fram um það efni 1983 kom fram hörð gagnrýni á málið frá Sverri Hermannssyni, þáverandi iðnaðarráðherra (1983-1985) sem taldi varasamt að binda slíkt við fasta prósentutölu vegna verðsveiflna á markaði. Benti hann á reynslu Norðmanna. Sagði hann að árið 1982 hafi norsk stóriðjufyrirtæki greitt að meðaltali 53% af almennu gjaldskrárverði ríkisrafveitnanna fyrir raforku.

Þetta kemur m.a. fram í Viðskiptablaðinu sl. miðvikudag, í úttekt á mögulegum orkuflutningum um sæstreng frá Íslandi til annarra Evrópulanda