Í kjölfar viðvörunar matsfyrirtækisins Fitch Ratings, varðandi stöðu ríkisfjármála, eru margir sammála um að hagstjórnin hafi fengið gula spjaldið og þurfi að taka tillit til gagnrýni Fitch Ratings sem er eitt virtasta og stærsta greiningarfyririrtæki heims. Viðskiptablaðið birtir í dag úttekt sína á aðfraganda og afleiðingum gagnrýni Fitch.

En ástæður fyrir því að Fitch breytti horfum sínum nú var að viðskiptahallinn og erlend skuldasöfnun hafa náð sögulegum hæðum og að aðhaldi í fjármálum hins opinbera sé enn ábótavant. Í kjölfarið telur Fitch að líkurnar á mjúkri lendingu hagkerfisins fari nú minnkandi.

Ingólfur Bender, sérfræðingur hjá Íslandsbanka, telur að til þess að auka líkurnar á mjúkri lendingu þurfi hagstjórnin að fylgja ábendingum Fitch og grípa til frekari aðhalds í ríkisfjármálum. Í því sambandi er nauðsynlegt að bíða með stórar framkvæmdir þar til hagkerfið hefur náð að rétta sig af. Ingólfur sagði að sú gengisþróun sem er skilyrði fyrir mjúkri lendingu væri háð því að ekki yrði ráðist í fleiri stóriðjuframkvæmdir á næstunni og að hagkerfinu yrði gefið að minnsta kosti eitt til tvö ár til að ná niður þenslu og rétta af þá útflutningsatvinnuvegi sem verða verst úti vegna ruðningsáhrifa yfirstandandi þenslu.