"Þrátt fyrir að skattar hafi að undanförnu verið lækkaðir þýðir það ekki að rekstrarskilyrði atvinnulífsins séu með besta móti. Sé til dæmis litið til útflutnings- og samkeppnisfyrirtækja kemur í ljós að aðstæður þeirra eru ekki samkeppnishæfar. Það dregur allan mátt úr fyrirtækjunum að búa við þau skilyrði sem hin óhagstæða sambúð við stóriðjuhagkerfið skapar," segir Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í viðtali í Viðskiptablaðinu í dag.

"Við höfum verið talsmenn þess í mörg ár að búa hinu fjölbreytilega almenna atvinnulífi hagstæðari skilyrði. Það er mikill misskilningur að slíkar aðgerðir séu eingöngu fólgnar í tekjuskattslækkunum. Við erum ekki síður að hugsa um nýju litlu fyrirtækin sem eru að vaxa. Tekjuskattslækkun gagnast þeim ekki þar sem þau skila ekki hagnaði," segir Steingrímur.Hann undrast jafnframt hversu þögulir forsvarsmenn atvinnulífsins hafa verið undanfarin misseri.


"Hafa þeir virkilega áhuga á öðru þenslutímabili sem hefur í för með sér að öllum öðrum atvinnugreinum verður rutt frá eins og raunin verður ef stóriðjan heldur áfram. Við erum ekki ein um að vera meðvituð um þetta og þeim fer fjölgandi sem taka undir með okkur að nú sé komið nóg og þarft er að hægja á. Meira að segja sjálfstæðismenn á sínum landsfundi álykta einhverja loðmullu í þeim efnum. En þegar betur er að gáð er ljóst að allt er á fullu í undirbúningi frekari stóriðju. Þetta er blekkingartal sem snýr að því að róa málin niður fram yfir kosningarnar. Svo verður tekið til óspilltra málanna við stóriðjutrúboðið að loknum kosningum, takist ekki að knýja fram breytta stefnu. Hvorki framsóknarmenn né sjálfstæðismenn eru gengnir af trúnni og stóriðjustuðningurinn nær langt inn í raðir fleiri flokka eins og við vitum, þó að þeir hagi málflutningi sínum öðruvísi nú í aðdraganda kosninganna. Þetta er gríðarlega stórt mál, ekki bara umhverfislega heldur líka í efnahagslegu, atvinnulegu og byggðarlegu tilliti," segir Steingrímur.


Sjá  meira í Viðskiptablaðinu í dag bls. 14-15