Væntingavísitala Gallup hækkaði í september, annan mánuðinn í röð, og mælist nú 76,2 stig sem er tveimur stigum meira en í fyrri mánuði.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis í morgun.

Þar kemur fram að vísitalan hefur aldrei farið lægra í septembermánuði frá því að mælingar vísitölunnar hófust árið 2001. Er vísitalan nú tæplega 40% lægri en á sama tíma fyrir ári síðan.

Þegar væntingavísitalan mælist undir 100 stigum eru fleiri svarendur neikvæðir en jákvæðir á stöðu og horfur í efnahagslífinu. Vísitalan hefur nú verið undir 100 stigum síðan í febrúar á þessu ári. Allar undirvísitölur væntingavísitölunnar eru eftir sem áður talsvert undir 100 stiga gildinu sem markar skilin milli svartsýni og bjartsýni.

Vísitalan fyrir bifreiðakaup hækkar

Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að vísitalan fyrir stórkaup stendur nú nánast í stað frá síðustu mælingu sem var í júní. Vísitalan hefur lækkað jafnt og þétt undanfarið ár og er nú 15% lægri en í september fyrir ári síðan.

Undirvísitalan um fyrirhuguð húsnæðiskaup stendur í stað frá síðustu mælingu en 93% aðspurðra telja mjög eða frekar ólíklegt að þeir muni kaupa hús eða íbúð á næsta hálfa árinu. Undirvísitalan fyrir utanlandsferðir lækkar um 3,4 stig frá fyrri mælingu.

Hinsvegar fjölgar þeim sem  telja bifreiðakaup líkleg á næstu 6 mánuðum en vísitalan fyrir bifreiðakaup hækkar um 6,1 stig frá síðustu mælingu.

„Engu að síður eru allar undirvísitölurnar fyrir stórinnkaup nú í eða nálægt sögulegu lágmarki og þarf engan að undra enda er ljóst að heimilin halda að sér höndum í efnahagsástandi sem nú ríkir og reyna að forðast stórinnkaup eftir því sem hægt er á meðan verðbólgan er í hámarki, gengið í sögulegu lágmarki og blikur á lofti á vinnumarkaði,“ segir Greining Glitnis í Morgunkorni.