Í febrúar útskrifaðist fyrsti hópurinn úr námi til löggildingar fasteignasala eftir að breytingar voru gerðar á lögum um sölu fasteigna sem kröfðust þess að allir sem störfuðu við slíkt þyrftu löggildingu að sögn Elínar Júlíönu Sveinsdóttur, verkefnastjóra námsins hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Hópurinn sem útskrifaðist nú var óvenju fjölmennur en hann taldi 77 einstaklinga. „Áður fyrr voru svona um 30 nemendur sem voru að útskrifast á hefðbundnu ári,“ segir Elín en nokkrar breytingar urðu á skipulagi námsins eftir lagabreytingarnar.

„Námið er að færast frá ráðuneytinu til háskólanna. Auk þess bættust 10 ECTS einingar við námið en meðaleinkunn nemenda lækkaði aðeins, úr 7 og í 6.  Nemendur eru heldur ekki með mætingarskyldu lengur. Eins og nýju lögin eru þá hefur háskólinn aðeins frjálsari hendur með skipulag námsins þótt það séu alltaf ákveðnar skyldur sem við þurfum að uppfylla. Við fengum aðeins rýmri heimild til þess að setja inn í námið það sem mest hefur kallað eftir frá fasteignasölum, t.d. tókum við inn samningatækni sem var ekki áður og jukum vægi áfanga sem heitir húsaskoðun og matstækni,“ segir Elín.

Nemendahóparnir eru enn nokkuð stórir og svo virðist ekki vera sem þeir séu aftur skroppnir niður í 30 manns. „Í náminu núna er hópur sem er á sinni síðustu önn og þar eru 59 nemendur. Svo telur hópurinn sem er á sinni annarri önn rétt tæplega 50. Stærð útskriftarhópsins núna held ég að ráðist bæði vegna þessara breytinga en ég held líka að námið hafi vakið áhuga hjá fólki,“ segir Elín og bætir við að fólk hafi að jafnaði verið ánægt með námið. „Við héldum rýnihóp með nokkrum nemendum sem voru að útskrifast því við viljum gera okkar besta og fá að heyra hvernig námið er að nýtast þeim. Það var nokkuð gott hljóð sem kom þaðan þótt það sé alltaf hægt að gera betur eða bæta í með þennan raunhæfa hluta þ.e. að tengja þetta enn betur við starfið og það er ætlunin núna, að gera það. Núna erum við í endurskoðun fyrir þann hóp sem hefur nám í haust og við ætlum að bæta í þennan raunhæfa hluta.“

Hjá fasteignasölunni Domusnova útskrifuðust 7 af þeim 77 sem útskrifuðust í febrúar eða rétt tæplega 10% af útskriftarnemum. Það má segja að ákveðin stakkaskipti hafi orðið hjá Domusnova en fyrir gildistöku laganna störfuðu aðeins tveir löggiltir fasteignasalar hjá fyrirtækinu en nú eru þeir orðnir 19 talsins. „Við erum 29 manns hjá fyrirtækinu. Það er allstór hópur sem útskrifast núna í vor og þá eru bara um tveir til þrír eftir,“ segir Víðir Arnar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Domusnova.

Víðir segir aukna menntun bæta þjónustuna. „Já, það held ég að sé alveg klárt mál. Það er til bóta fyrir viðskiptavininn að menn séu lærðir og kunni betur tökin á þessu,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .