Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, segir frá starfsemi HB Granda á erlendri grundu, en félagið á meðal annars eignarhlut í fyrirtæki í Suður-Ameríku og selja Bretum fisk fyrir sitt heimsfræga „Fish n’ Chips“.

Þið eigið 20% hlut í félagi í Síle, hvernig kom það til? Gengur sú starfsemi vel?

„Það eru rúm 20 ár síðan við eignuðumst þennan 20% hlut í Síle. Þá var þar fjölskylda sem stóð að innflutningi á bílum og hafði auðgast mjög á því, en vildi setja jafnvægi í starfsemina og standa í útflutningi líka og stofnaði því útgerð. Þeir höfðu enga þekkingu á útgerð og voru að leita að samstarfsaðila til að fá þekkingu. Það endaði hjá okkur og það fóru héðan á annan tug manna til að aðstoða þá við að koma þessu verkefni af stað. Við höfum átt okkar 20% hlut síðan þá og það eru tveir Íslendingar enn starfandi hjá útgerðinni, einn skipstjóri og útgerð­ arstjórinn. Í gegnum tíðina hefur þetta samstarf gengið vel og við höfum haft af því nokkrar tekjur. Reksturinn hefur að vísu verið mjög sveiflukenndur eftir að þeir fóru út í laxeldi fyrir nokkrum árum. Það skilaði miklu tapi árið 2015 og framan af ári 2016 en hefur skilað ágætis afkomu síðasta hálfa árið.“

Fyrir þá sem lítið vita varðandi söluna á fisknum, hvernig fer hún fram? Eruð þið sjálf með mikið sölu- og markaðsstarf?

„Við erum með okkar eigin markaðsdeild þar sem 15 manns starfa og hún er bara stödd hér í Norðurgarði. Við erum ekki með neina starfsmenn, umboðsmenn eða söluaðila erlendis, heldur seljum við beint til allra okkar kaupenda héðan þannig okkar fólk er töluvert mikið á ferðinni. Við höfum verið heppnir með okkar viðskiptamenn og valið þá vel. Flestir okkar viðskiptavinir hafa verið það í langan tíma og eiga eftir að vera það til langs tíma áfram, við lítum á þá sem okkar samstarfsaðila.“

Hverjir eru helstu kaupendurnir? Eru það verslanakeðjur, heildsalar...?

„Það er bara mjög misjafnt. Á Englandi er til dæmis einn aðili sem kaupir allan okkar sjófrysta þorsk og dreifir honum á „Fish n’ Chips“ staði. Þar er mjög gott samstarf í gangi, eigendur staðanna koma hingað og hafa farið á túr með frystitogara, og áhafnir okkar hafa farið út og borðað á þessum stöðum. Ef við förum svo til Frakklands, sem er ferski markaðurinn, þar er einn aðili sem tekur við okkar fisk og dreifir honum í verslanir og víðar. Í uppsjávarfisknum er síð­ an meira selt til aðila sem eru að vinna fiskinn meira, setja í dósir og annað slíkt, til dæmis í Póllandi, Hvíta-Rússlandi og annars staðar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .