Slitastjórn SPB, áður Icebank fundaði með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í byrjun vikunnar. Þar bentu þau nefndinni á að hagsmunir litlu slitabúanna og stóru slitabúanna færu ekki endilega alltaf saman.

Er þá sérstaklega bent á að flestar tillögur nauðasamninga hnígi í þá átt slitameðferð ljúki með staðfestingu nauðasamninga. Slík aðferð henti þó ekki endilega í öllum tilvikum og þá sérstaklega í tilvikum litlu búanna þar sem gjaldþrotaleiðin gæti verið einfaldari og hentugri leið til að ljúka slitum. Sú leið komi hins vegar ekki til greina vegna íþyngjandi skattgreiðslna.

Bent er á að skattalegar afleiðingar gjaldþrotaleiðar og nauðasamningsleiðar eru ekki þær sömu og muni mestu um álagningu stöðugleikaskatts sem leggst á gjaldþrota bú en ekki á nauðasamningsbú.

Slitastjórn SPB leggur því til að breyta lögum um stöðugleikaskatt til samræmis við breytingar á sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki, þ.e. bankaskatturinn , þannig að einungis yrðu eignir umfram 50 milljarða skattlagðar.

Til rökstuðnings breytingunni er bent á að SPB þarf ekki að greiða stöðugleikaframlag þar sem slitabúið ógni ekki stöðugleika að mati Seðlabanka Íslands.