Nú á vormánuðum verður stofnuð ný rekstrareining innan Haga, sem mun bera nafnið Stórkaup. Meginhlutverk Stórkaups verður þjónusta við stórnotendur, t.d. framleiðendur, rekstraraðila og veitingageirann, þar sem áhersla verður lögð á hátt þjónustustig og nútímavætt sölukerfi, sem byggir á vefsölu og öflugu þjónustuveri. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Sjá einnig: Rekstrarland heyrir sögunni til í vor

Stefnt hafði verið að tilfærslu á hreinlætis-, rekstrar- og heilbrigðisvörum innan Olís yfir í nýja einingu innan Haga sem samhliða yfirtekur hlutverk Rekstrarlands. Hin nýja eining mun bera nafnið Stórkaup, eins og áður segir.

Stórkaup mun nýta sterka innviði Haga þegar kemur að innkaupum- og vöruhúsarekstri og mun Stórkaup að nokkru leyti taka við hlutverki Rekstrarlands, sem í dag er hluti af Olís. Samhliða opnun Stórkaups er unnið að aðlögun á útibúneti Olís á landsbyggðinni, einkum þjónustuskipulagi, en á næstu mánuðum verður verslunum breytt í afgreiðslulagera og söluskrifstofur. Þetta mun gera Olís kleift að skerpa á fókus, varðveita þá sérstöðu sína sem fólgin er í nærþjónustu um allt land og veita enn betri þjónustu í þeim vöruflokkum sem eftir standa, að því er kemur fram í tilkynningu.

Finnur Oddsson, forstjóri Haga:

„Með tilfærslu verkefna Olís innan samstæðu Haga hefur skapast grundvöllur fyrir rekstrareiningu sem sinnir stórnotendum umfram það sem við höfum hingað til gert og nýtum til þess styrkleika félagsins, einkum á sviði innkaupa og í starfsemi vöruhúsa. Stórkaup er ætlað það hlutverk að þjóna stórnotendum um aðföng á breiðum grunni þar sem leiðarljósin verða hagkvæmni, nútímalegt þjónustustig og einfalt skipulag sölu og dreifingar. Það er sérlega ánægjulegt að góður hópur starfsfólks sem starfað hefur fyrir Olís hefur fengið ný hlutverk hjá Stórkaup, en Árni Ingvarsson hefur verið ráðinn til að leiða félagið til framtíðar. Viðskiptavinir Stórkaups munu njóta þekkingar og reynslu þessa öflugu hóps í skemmtilegu uppbyggingarstarfi sem er framundan."

Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Olís:

„Á undanförnum misserum hefur Olís tekið mikilvæg skref sem miða að því að efla hagkvæmni í rekstri og skerpa á fókus starfseminnar. Endurskipulagning á vöruframboði og þjónustufyrirkomulagi á fyrirtækjasviði er mikilvægur liður í þessum aðgerðum. Þeir vöruflokkar sem koma til með að flytjast yfir til Stórkaup eru safn gæðavörumerkja sem viðskiptavinir okkar hafa verið mjög ánægðir með. Á sama tíma gera þessar aðgerðir okkur hjá Olís kleift að sníða sölu- og dreifikerfi okkar betur að þeim vöruflokkum sem eftir standa og skerpa fókus enn frekar á okkar kjarnarekstur."