Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, segir að Seðlabankinn hafi gert „stórkostleg ný mistök“ með viðbrögðum sínum við hefðbundnum mistökum í fjármálastjórn hins opinbera.

Hagkerfið hafi reynt að vaxa hraðar en framleiðslugeta þess leyfði og hið opinbera hafi farið fremst í flokki með gríðarlegum fjárfestingum auk aukinna útlána og fyrirgreiðslu til íbúðarlánakaupa. Við þessu hafi Seðlabankinn brugðist með því að hækka vexti, en það hafi lítið sem ekkert dregið úr eftirspurn þar sem fólk og fyrirtæki hafi þá slegið ódýr lán erlendis.

Við þetta hafi gengi krónunnar hækkað vegna vaxtamunarviðskipta, sem hafi slegið á verðbólguna, en sett útflutningsatvinnuvegi og samkeppnisgreinar innflutnings í verulegar kröggur.

Í kjölfarið hafi aðhald í rekstri hins opinbera ekki verið nægjanlega mikið. „Með öðrum orðum áttu sér stað þessi hefðbundnu mistök í fjármálastjórn hins opinbera [...] og stórkostleg ný mistök Seðlabankans, sem virðist ekki geta meðtekið að hann er kominn í nýtt efnahagsumhverfi,“ segir Ragnar.

Hann segir að þar sem útlendingar hafi nánast algjörlega lokað á lán til Íslands standi fólk og fyrirtæki frammi fyrir því að þurfa að greiða 15% eða hærri vexti af lánum sínum en áður, í stað 5-6%.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .