Ninian Wilson, Global SCM Director og forstjóri, Vodafone Procurement Company mun á næsta fundi faghóps um Innkaupa- og vörustýringu hjá Stjórnvísi, þann 23. nóvember, segja frá umbreytingarvegferð Vodafone og framtíð innkaupastýringar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnvísi.

Þar segir að Ninian hafi hlotið fjölda verðlauna fyrir árangur sinn með Vodafone Procurement Company, meðal annars sem 'Leader of the year' 2021 hjá CIPS (Chartered Institure of Procurement & Supply), sem munu vera æðstu verðlaun sem hægt er að fá í þessum geira, fyrir framsýni sína og framlag sitt til framþróunar innkaupa- og vörustýringar, stafrænnar vegferðar og virðissköpunar.

Vodafone Procurement hefur umsjón með innkaupum að verðmæti samtals 25 milljörðum evra árlega og um það bil 880.000 pöntunum á hverju ári fyrir Vodafone um heim allan, sem gerir fyrirtækið að stærsta kaupanda á upplýsingatækni í heimi. Hjá fyrirtækinu starfa 850 starfsmenn sem gegna lykilhlutverki í stafrænni vegferð, úrvinnslu og greiningu gagnamagns sem verður til við slíkt umfang. Í tilkynningunni segir að markmið Vodafone sé að vera með bestu innkaupastýringu í heimi og að skapa sjálfbært samkeppnisforskot fyrir alþjóðlegu samstæðuna Vodafone.

Á fundi Stjórnvísi mun Ninian veita innsýn á bak við tjöldin hjá Vodafone Procurement auk þess að fjalla um nýjungar og hvert fyrirtækið stefnir á næstu árum. Vodafone Procurement vinnur náið með Vodafone á Íslandi og mun Guðrún Gunnarsdóttir, aðfangastjóri Vodafone á Íslandi, fjalla um samstarfið á fundinum og hvernig það nýtist Vodafone á Íslandi. Þá mun Davíð Ingi Daníelsson, sviðsstjóri stefnumiðra innkaupa hjá Ríkiskaupum segja frá umbreytingarvegferð og framtíðarsýn Ríkiskaupa. Áhugasamir geta skráð sig á viðburðinn á heimsíðu Stjórnvísi.