Fjártæknifélagið Ramp, sem býður upp á greiðslukort fyrir fyrirtæki og hugbúnað því tengdu sem heldur utan um útgjöld starfsmanna, safnaði 115 milljónum dala í nýlokinni fjármögnunarumferð. Í kjölfar fjármögnunarinnar er félagið metið á 1,6 milljarða dala. Reuters greinir frá þessu.

Meðal fjárfesta sem tóku þátt var bandaríski fjártæknirisinn Stripe og fjárfestingafélagið D1 Capital Partners.

Meðal helstu keppinauta Ramp er hið rótgróna greiðslumiðlunarfyrirtæki American Express, fjártæknifélagið Brex og eldri hugbúnaðarframleiðendur á borð við Expensify og SAP Concur.

Fjártæknifélög sem bjóða upp á ýmis konar greiðslumiðlunarmöguleika hafa blómstrað í heimsfaraldrinum með aukinni áherslu á snertilausar greiðslur. Fjárfestar hafa þar af leiðandi rennt hýru auga til fjártæknifyrirtækja undanfarin misseri.